Lewis-Francis mun keppa í 60 metra hlaupi á Reykjavik International Games á sunnudaginn kemur. Besti tími Englendingsins, sem verður 32 ára á árinu, í 60 metra hlaupi er 6,51 sekúnda frá árinu 2001. Besti tími hans frá síðasta ári er 6,75 sekúndur.
Lewis-Francis vann til silfurverðlauna í 100 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Barcelona sumarið 2010. Þá var hann í bronssveit Breta í 4x100 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í Helsinki 2005 og Osaka í Japan árið 2007.

Kolbeinn Höður Gunnarsson, spretthlauparinn efnilegi úr UFA, kom fyrstur í mark á Meistaramóti 15-22 ára í Laugardalnum um liðna helgi. Kolbeinn hljóp á tímanum 7,03 sekúndur og fast á hæla hans kom Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS á 7,05 sekúndum. Þeir félagar verða báðir 19 ára á árinu og munu fá mikla samkeppni frá Lewis-Francis um helgina.
Undanrásir í 60 metra hlaupinu fara fram klukkan 13:15. Úrslitahlaupið fer svo fram rúmri klukkustund síðar eða klukkan 14:25.