Hafdís Sigurðardóttir úr UFA kom fyrst í mark í 400 metra hlaupi á Stórmóti ÍR í dag og setti í leiðinni nýtt mótsmet.
Hafdís kom í mark á tímanum 54,36 sekúndur og var 2,5 sekúndum á undan Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur sem varð í öðru sæti á 56,85 sekúndu. ÍR-ingurinn á best 54,73 sekúndur innanhúss.
Mótsmetið á Stórmóti ÍR, sem nú fer fram í 18. skipti, var 56,04 sekúndur frá því í fyrra. Hafdís átti sjálf best 55,32 sekúndur frá því á Meistaramótinu innanhúss í febrúar í fyrra.
Kári Steinn Karlsson, sem nýlega skipti úr Breiðabliki yfir í ÍR, bætti mótsmetið í 1500 metra hlaupi karla þegar hann kom í mark á tímanum 3:55,81 mínútum. Björn Margeirsson átti metið, 3:57,10 mínútur, frá árinu 2012.
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR setti fyrr í dag nýtt Íslandsmet í 1500 metra hlaupi kvenna. Þá hafa fjölmörg mótsmet verið sett á Stórmótinu sem lauk í Laugardalnum í dag.

