Það kemur í hlut hins 28 ára Bandaríkjamanns Bruno Mars að skemmta lýðnum á sunnudagskvöldið þegar stærsti íþróttaviðburður ársins í Bandaríkjunum fer fram.
Denver Broncos og Seattle Seahawks mætast í Super Bowl, úrslitaleik NFL-deildarinnar, í New Jersey í leik sem beðið er með mikilli eftirvæntingu. Ekki aðeins er það leikurinn sjálfur sem fólk bíður eftir heldur einnig skemmtiatriðin í hálfleik þar sem Mars mun fara fremstur í flokki.
„Ekki leyfa neinum að stöðva þig,“ sagði Mars á blaðamannafundi í aðdraganda leiksins. Var hann spurður hvaða ráð hann gæti gefið ungu fólki sem vildi koma sér á framfæri og slá í gegn. Sjálfur er Mars fæddur og uppalinn á Hawaii.
„Ég lenti í því þegar ég var að byrja að fólk einblíndi á hvaðan ég væri. Það skiptir víst öllu máli í tónlistarheiminum.“
Mars segir að öllu skipti að leggja hart að sér við áhugamálið og þá liggi leiðin bara upp á við. Viðtalið við Mars má sjá í heild sinni hér að ofan.
Mars mun skemmta í hálfleik líkt og rokksveitin Red Hot Chili Peppers. Sveitirnar munu feta í fótspor ekki ómerkari banda en Paul Simon, Rolling Stones, U2, Prince og Paul McCartney svo fáeinir tónlistarmenn og hljómsveitir séu nefndar.
Super Bowl verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD á sunnudagskvöld. Upphitun hefst klukkan 22.00 en leikurinn sjálfur klukkan 23.25. Andri Ólafsson stýrir umræðum á meðan leiknum stendur og áhorfendur eru hvattir til að taka þátt á Twitter með merkinu #NFLisland.
