Michael Sam, ungur Bandaríkjamaður, er á góðri leið með að verða fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn í NFL-deildinni í amerískum fótbolta.
Sam opinberaði fyrir samherjum sínum í Missouri-háskólanum á síðasta ári að hann væri samkynhneigður og átti svo frábært ár með liðinu.
„Ég leit í augu strákanna og þeir byrjuðu bara hrista hausinn. Þeir voru fegnir að ég kæmi loks út úr skápnum,“ segir Sam í viðtali við New York Times en hann fékk mikinn stuðning frá liðsfélögum sínum.
Hann var einn albesti leikmaður liðsins sem vann tólf leiki og tapaði tveimur á leið sinni að Bómullarskálinni sem er einn af stærri „úrslitaleikjum“ háskólaboltans.
Nú er háskólaferli Sams lokið og verður hann á meðal þeirra leikmanna sem NFL-liðin berjast um í nýliðavalinu 8. maí n.k.
Talið er öruggt að hann verði valinn í annarri eða þriðju umferð nýliðavalsins. Standi hann sig í kjölfarið á fyrstu æfingum nýs liðs og fái samning verður hann fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn í deildinni.
Sam segir í viðtalinu við NY Times að hann hafi ákveðið að koma út úr skápnum á þessum tímapunkti því hann var orðinn var við orðróma um kynhneigð sína.
„Ég vildi bara passa að ég gæti sagt söguna á minn hátt,“ segir Michael Sam en umfjöllunina má lesa hér.
Verðandi NFL-stjarna kemur út úr skápnum
