Þórdís Eva Steinsdóttir og Tristan Freyr Jónsson bættu unglingamet á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum sem fór fram um helgina.
Þórdís Eva, sem keppir fyrir FH, er einungis fjórtán ára gömul en hún bætti metið í fimmtarþraut í bæði 14 og 15 ára flokkum stúlkna. Hún fékk 3421 stig fyrir þraut sína um helgina.
Þess má geta að samkvæmt heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands hefur Þórdís Eva bætt á sjötta tug aldursflokkameta til þessa.
ÍR-ingurinn Tristan Freyr bætti metið í flokki 16-17 ára pilta en hann fékk 4696 stig fyrir sína sjöþraut. Eldri bróðir hans, Krister Blær, keppti í flokki 18-19 ára og fékk 4900 stig.
Krister Blær hefur bætt sig mikið að undanförnu og stökk til að mynda 4,60 m í stangarstökki með 60 m stöng um helgina. Hann fór 3,30 m á sama móti í fyrra.

