Í stöðuuppfærslu á fésbókarsíðu sinni segir Sveinn Andri berum orðum að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sé svikari. „Þetta er maður sem svíkur loforð. Eru þeir ekki svikarar sem svíkja loforð?“ segir Sveinn Andri við fréttastofu Vísis.
„Hann er að bregðast kjósendum og þjóðinni. Bæði hann og Sigmundur Davíð,“ segir Sveinn. „Hann lofaði því mjög afdráttarlaust fyrir kosningar að það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðnanna. Það voru engir tvímálar eða fyrirvarar um það. Þetta loforð er svo algjörlega í samræmi við stjórnarsáttmálann,“ bætir Sveinn við.
Í stjórnarsáttmálanum segir:
„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Aðspurður hvers vegna það komi honum á óvart að umsóknin hafi verið dregin til baka í ljósi þess að slit á viðræðunum sé yfirlýst stefna bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir Sveinn Andri að stefna flokkanna breyti engu um loforð sem voru gefin fyrir kosningar, sem nú sé verið að svíkja. „Málið er bara það að þessir menn sáu fram á að þjóðin myndi vilja halda viðræðunum áfram. Þeir eru bara hræddir við vilja þjóðarinnar,“ segir Sveinn Andri.
Hann telur einnig að ríkisstjórnarflokkarnir séu ósamkvæmir sjálfum sér þegar kemur að viðhorfi þeirra til þjóðaratkvæðagreiðslna. „Það var sjálfsagt í þeirra huga að almenningur fengi að kjósa um Icesave, en þar mátti alveg treysta almenningi til að kjósa. Núna er þetta orðið öðruvísi. Gunnar Bragi Sveinsson, sjoppustjórinn á Sauðárkróki á núna að hafa djúpt innsæi til að ákveða hvað sé þjóðinni fyrir bestu í þessu máli.“ segir Sveinn Andri.
Aðspurður hvort það hafi borist í tal meðal sjálfstæðismanna að segja sig úr flokknum eða stofna nýjan stjórnmálaflokk segir Sveinn Andri: „Ég held að jarðvegurinn hafi aldrei verið eins frjór og núna. Ég hef ekki mikið skap til að vera í flokki sem getur ekki staðið við kosningaloforð,“ segir Sveinn Andri Sveinsson