Njarðvíkingurinn Hjörtur Hrafn Einarsson fékk hrós frá þjálfara sínum eftir sigurinn á ÍR í í Seljaskóla í kvöld en Njarðvíkingar enduðu þá þriggja leikja taphrinu sína með öruggum 95-72 sigri.
Hjörtur Hrafn lék samt bara í rúmar fimmtán mínútur í leiknum og skaut aldrei á körfuna. Áhrif hans á leikinn sjást hinsvegar í plús og mínus en Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, hrósaði Hirti réttilega fyrir varnarleikinn sem hann spilaði í leiknum í kvöld.
Njarðvikurliðið vann þær 15 mínútur og 12 sekúndur sem Hjörtur Hrafn spilaði 50-16 eða með 34 stiga mun. Það þýðir að þær 24 mínútur og 48 sekúndur sem Hjörtur Hrafn sat á bekknum tapaði Njarðvíkur liðið, 45-56, eða með 11 stiga mun.
Hjörtur breytti leiknum þegar hann kom inná í fyrri hálfleiknum en ÍR-liðið skoraði þá bara 11 stig á þeim rétt rúmu 11 mínútum sem hann spilaði í hálfleiknum. Njarðvíkurliðið vann þann kafla í fyrri hálfleiknum 37-11.
Hjörtur Hrafn inn á vellinum í kvöld:
15 mínútur, 12 sekúndur
Njarðvík 50 stig
ÍR 16 stig
Nettómunur: Njarðvík +34
(Hjörtur Hrafn var með 0 stig, 3 fráköst, 1 stoðsendingu og 1 varið skot)
Hjörtur Hrafn á bekknum í kvöld:
24 mínútur, 48 sekúndur
Njarðvík 45 stig
ÍR 56 stig
Nettómunur: ÍR +11
