Deildarmeistarar Snæfells verða líklega án hinnar bandarísku Chynnu Brown, sem meiddist strax í fyrsta leik úrslitakeppninnar, þegar liðið mætir Val í þriðja leik undanúrslitarimmu liðanna klukkan 19.15 í kvöld.
Staðan í einvíginu er 1-1 en þrjá sigra þarf til að komast í lokaúrslitin.
„Ég held að það sé nánast útilokað [að hún spili í kvöld],“ sagði Baldur Þorleifsson, aðstoðarþjálfari Snæfells, í samtali við Fréttablaðið í gær.
„Við höfum reynt allt sem við getum og þyrfti kraftaverk til að hún næði sér fyrir leikinn. Það eru allar líkur á því að við sjáum hana ekki meira í úrslitakeppninni úr þessu.“
Brown meiddist á fæti og er með skaddað liðband í rist, jafnvel slitið. Þá meiddist Hugrún Eva Valdimarsdóttir í sama leik og er því blóðtakan mikil fyrir Snæfell.
Tímabilið líklega búið hjá Brown
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
