Innlent

Ljósin kveikt að nýju

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/heiða
Ekki var kveikt á götuljósum í Reykjavík og Seltjarnarnessbæ fyrr en klukkan 21.30 í kvöld. Með því tóku sveitarfélögin þátt í umhverfisviðburðinum Jarðarstund eða Earth hour. Fræðslufulltrúi Reykjavíkurborgar segir viðburðinn hafa tekist vel til. Hann segir að ábendingar hafi borist um að ökumenn í bænum keyrðu hægar en vanalega og væru varkárari í umferðinni.

„Viss róleg stemning skapaðist. Við vonuðumst til að fólk notaði kertaljós heima hjá sér og byggi til sína eigin jarðarstund,“ segir Gunnar Hersveinn, fræðslufulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Jarðarstund er alþjóðlegur umhverfisviðburður sjálfboðaliðasamtakanna World Wildlife Fund sem 7.000 þúsund borgir í 150 löndum taka þátt í. Margir hafa hugann við hlýnun jarðar af mannavöldum og þau áhrif sem meðal annars birtast í náttúruhamförum eins og ofsaveðri.

Stundin hófst í Nýja Sjálandi á staðartíma kl. 20:30 og breiðist síðan út yfir tímabelti jarðarkringlunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×