Undirbúningur fyrir úrslitaþátt Ísland Got Talent var í fullum gangi þegar kvöldfréttir Stöðvar 2 kíktu í Austurbæ fyrr í kvöld. Af rúmlega þúsund atriðum sem skráðu sig til leiks í keppnina í upphafi standa nú sjö atriði eftir og eitt þeirra fer með sigur af hólmi í kvöld.
Og það er til mikils að vinna því verðlaunaatriðið hlýtur tíu milljónir íslenskra króna.
Auðunn Blöndal, kynnir þáttarins, lofar góðri skemmtun og óvæntum atriðum í þætti kvöldsins.
„Ég er mikill áhugamaður um þætti af þessu tagi. Venjan er að í úrslitaatriðin séu endurtekning á því sem þátttakendur hafa áður flutt í þáttaröðinni en það verður ekki þannig hjá okkur. Allir keppendur frumflytja ný atriði fyrir okkur í kvöld," segir Auðunn.
Það er alfarið í höndum þjóðarinnar að velja sigurvegara kvöldsins með símakosningu. Dómnefndin ætlar þó ekki að láta sig vanta og vill Bubbi Morthens, einn dómaranna, alls ekki meina að dómararnir séu alveg valdalausir í kvöld, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.
Kollegi hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segist sömuleiðis hlakka til kvöldsins.

