Sport

Barshim og Bondarenko stukku báðir yfir 2,42m

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mutaz Essa Barshim stökk yfir 2,42m í gær.
Mutaz Essa Barshim stökk yfir 2,42m í gær. Vísir/Getty
Það dró til tíðinda í hástökkskeppninni á sjötta Demantamótinu í New York í gær.

Bæði Mutaz Essa Barshim frá Katar og Bohdan Bondarenko frá Úkraínu lyftu sér yfir 2,42m sem er næstbesti árangur í greininni frá upphafi. Þeir deila öðru sætinu með Svíanum Patrik Sjöberg sem stökk 2,42m í júní 1987.

Barshim og Bondarenko reyndu við heimsmet Javiers Sotomayor (2,45m), en felldu báðir.

Stökk þeirra Barshims og Bondarenko eru þau bestu í greininni síðan Kúbumaðurinn Sotomayor lyfti sér yfir 2,42m á móti í Sevilla þann 5. júní 1994.

"Ég veit að þetta var besta hástökkskeppni í sögunni," sagði Barshim í gær. "Það er gullöld í hástökkinu núna. Allir eru að fylgjast með hástökki og það er mjög jákvætt fyrir okkur."

Barshim og Bondarenko eru efstir og jafnir á Demantamótaröðinni þegar sjö mótum er ólokið. Næsta mót fer fram í Lausanne í Sviss.

Bestu stökk sögunnar:

1. Javier Sotomayor (Kúba) - 2,45m (1993)

2.-4. Patrik Sjöberg (Svíþjóð) - 2,42m (1987)

2.-4. Mutaz Essa Barshim (Katar) - 2,42m (2014)

2.-4. Bohdan Bondarenko (Úkraína) - 2,42m (2014)

5.-6. Igor Paklin (Sovétríkin) - 2,41m (1985)

5.-6. Ivan Ukhov (Rússland) - 2,41m (2014)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×