Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, lýsti í morgun yfir sakleysi sínu í flestum ákæruliðum fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Sigurður er ákærður fyrir stórfelldan fjárdrátt, fjársvik og þjófnað. Ákæran gegn honum er í átján liðum og fjölmörgum undirliðum. Að sögn Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns Sigurðar, neitar Sigurður sök í öllum liðum nema fjórum.
„Þeir liðir varða dyravarðanámskeið og að hafa ætlað að stofna reikninga fyrir tiltölulega ungt fólk í Lúxemborg,“ segir Vilhjálmur. „Hann játar fjárdrátt, skástrik fjársvik, gagnvart þessum aðilum en neitar öllum öðrum.“ Vilhjálmur segir að jafnframt hafi verið lögð fram frávísunarkrafa í nokkrum ákæruliðum.
Hinir ákæruliðirnir snúa meðal annars að svíkja út skyndibita, eldsneyti og leigu á bílum fyrir miklar upphæðir. Sigurður var í fyrra dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára pilti. Í kjölfarið var hann hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um kynferðisbrot gegn fleiri piltum.