Golf

Gísli áfram í forystu í Aberdeen

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Gísli Sveinbergsson er að leika frábærlega í Skotlandi.
Gísli Sveinbergsson er að leika frábærlega í Skotlandi. Vísir/GSÍ
Gísli Sveinbergsson úr Golfklúbbnum Keili er áfram í forystu á Duke of York Young Championship ungmennamótinu sem fram fer á Royal Aberdeen í Skotlandi. Keppni var frestað skömmu fyrir hádegi í dag vegna mikillar þoku sem olli því að skyggni var lítið sem ekkert.

Gísli náði að leika fimm holur í dag og lék þær á tveimur höggum undir pari. Hann er því á fjórum höggum undir pari í mótinu eftir að hafa leikið fyrsta hringinn í mótinu á 69 höggum eða tveimur höggum undir pari. Hann er eins og stendur tveimur höggum betri en Skotinn Ewen Ferguson sem er annar í mótinu.

Í Duke of York mótinu hafa aðeins landsmeistarar pilta og stúlkna keppnisrétt og því er um mjög sterkt mót að ræða. Á heimasíðu Golfsambandsins kemur fram að Gísli hafi í stuttu viðtali við blaðamann mótsins sagt að mikilvægt væri að vera þolinmóður. Karginn á Royal Aberdeen sé mjög erfiður og því mikilvægt að hitta brautir og flatir.

Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur leikur einnig í mótinu. Hún lék 16 holur í dag og hafði leikið þær á fjórum höggum yfir pari. Ragnhildur lék fyrsta hringinn í gær á 81 höggi. Keppni verður áframhaldið í fyrramálið en leiknir eru þrír hringir í mótinu.

Tvívegis hefur Íslendingur staðið uppi sem sigurvegari í mótinu. Árið 2010 bar Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigur úr býtum. Tveimur árum síðar gerði Ragnar Garðarsson úr Gofklúbbi Kópavogs og Garðabæjar slíkt hið sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×