Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu frá upphafi, mun ekki ganga til liðs við danska úrvalsdeildarliðið FC København. Frá þessu er greint á heimasíðu FCK.
Eiður hefur æft með danska liðinu að undanförnu og lék æfingaleik með því á mánudaginn, þar sem hann átti tvær stoðsendingar.
Á heimasíðu FCK kemur fram að hluti ástæðunnar hafi verið að Eiður hefði ekki getað spilað með liðinu í Evrópudeildinni. Honum er þó þakkað fyrir jákvæðar viðræður.
Eiður hefur verið án félags síðan samningur hans hjá Club Brugge rann út eftir síðasta tímabil.
