Golf

Rory: Hápunktur vikunnar að hlusta á Ferguson

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rory McIlroy með evrópska liðinu og Sir Alex Ferguson fyrir miðju eftir ræðu Skotans á þriðjudagskvöldið.
Rory McIlroy með evrópska liðinu og Sir Alex Ferguson fyrir miðju eftir ræðu Skotans á þriðjudagskvöldið. vísir/getty
Rory McIlroy, stigahæsti kylfingur heims og ofurstjarna Ryder-liðs Evrópu í ár, var vægast sagt heillaður af Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóra Manchester United, og liðsræðu hans fyrir evrópska Ryder-liðið á þriðjudagskvöldið.

Paul McGinley, fyrirliði Evrópu, fékk Ferguson til að messa yfir sínum mönnum, en Rory er gríðarlega mikill stuðningsmaður Manchester United og mætti t.a.m. á Old Trafford á fyrsta heimaleik tímabilsins með Silfurkönnuna; sigurlaunin á opna breska meistaramótinu.

„United var alltaf líklegra til að vinna þegar hann stýrði liðinu og Old Trafford var algjört virki á þeim tíma. Þegar hann var þarna var mjög erfitt að keppa á móti United,“ sagði Rory við BBC um Ferguson, en evrópska liðið er eins og United forðum daga; líklegt til árangurs.

„Eðlilega erum við taldir aðeins líklegri og við eigum það skilið. Við höfum allir spilað mjög vel í ár og við þurfum ekkert að fela það. Það er eitthvað sem við eigum að fagna.“

Norður-Írinn ungi verður skærasta stjarnan á Gleneagles-vellinum þegar keppni í Ryder-bikarnum hefst á morgun, en fyrir honum er Ferguson stærsta nafnið á svæðinu.

„Fyrir mig sem stuðningsmann Manchester United var þetta hápunktur vikunnar. Ég sat þarna bara og gat ekki hætt að horfa á hann. Ég hlustaði á hvert einasta orð og hugsaði að þetta hlyti að vera hluti af því sem hann sagði við United-liðið öll þessi ár,“ sagði Rory McIlroy.

Setningarathöfn Ryder-bikarsins fer fram í dag klukkan 15.00. Hún, og keppnisdagarnir þrír frá föstudegi til sunnudags, eru í beinni útsendingu á Golfstöðinni. Fáðu þér áskrift hér.


Tengdar fréttir

Fowler rakar „USA“ í hárið

Bandaríski kylfingurinn Rickie Fowler mætti ásamt liðsfélögum sínum í bandaríska liðinu til Skotlands í dag þar sem Ryder-bikarinn hefst formlega á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×