Íslenska karlalandsliðið æfði í dag á Laugardalsvellinum og margra augu voru á Gylfa Þór Sigurðssyni sem meiddist í sigurleiknum í Lettlandi á föstudagskvöldið. Framundan er leikur við Hollendinga á morgun.
Gylfi skokkaði með strákunum á æfingunni í dag sem eru vissulega góðar fréttir en hann var þó ekki í fótboltaskónum sínum heldur aðeins í strigaskóm.
Íslenskir fjölmiðlamenn fengu að fylgjast með æfingunni í fimmtán mínútur en það er augljóst á skóbúnaði Swansea-mannsins að Gylfi mun taka því rólega á þessari æfingu.
Frekari fréttir af stöðu mála hjá Gylfa koma inn á Vísi seinna í dag en íslenski hópurinn hittir blaðamann eftir æfinguna. Íslenska liðið er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína og Gylfi hefur skoraði í þeim báðum og farið fyrir glæsilegum leik okkar manna.
Gylfi bara á strigaskónum á æfingunni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
