Karlalið ÍR í körfubolta varð fyrir miklu áfalli þegar einn af lykilmönnum liðsins, Björgvin Hafþór Ríkharðsson, sleit krossaband í hné en þetta kemur fram á karfan.is.
Björgvin meiddist ekki á æfingu eða leik með ÍR heldur í íþróttatíma við Háskólann í Reykjavík þar sem Björgvin stundar íþróttafræði.
„Eins og staðan er vona ég að þetta verði ekki mikið meira en þrír mánuðir, ég get gengið og það eru stífar æfingar framundan við að styrkja löppina sama hvort ég fari í aðgerð eða ekki,“ sagði Björgvin í viðtali við karfan.is.
Björgvin skoraði átta stig og gaf 3 stoðsendingar í eina leiknum sem hann hefur spilað í Dominos-deildinni á tímabilinu en ÍR-ingar hafa tapað þremur fyrstu leikjum sínum.
Björgvin var með 11,4 stig, 5,1 frákast og 2,5 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
Körfubolti