Skallagrímur og Snæfell mætast í kvöld í Vesturlandsslag í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst hann klukkan 19.15.
Borgnesingum hefur ekki gengið alltof vel með nágranna sína síðustu ár og þá hafa heimaleikirnir ollið liðinu örugglega mestum vonbrigðum.
Snæfellsliðið hefur nefnilega ekki tapað deildarleik í "Fjósinu" í Borgarnesi í tæp sjö ár eða síðan Skallagrímur vann leik liðanna 16. nóvember 2007.
Hólmarar hafa unnið þrjá síðustu úrvalsdeildarleiki sína í Borgarnesi þar á meðal 89-86 sigur á síðasta tímabili en sá leikur fór einnig fram í upphafi tímabils eins og þessi leikur í kvöld.
Snæfell hefur reyndar verið miklu sterkari en Skallagrímur í síðustu leikjum liðanna af Vesturlandinu því Hólmarar hafa fagnað sigri í sex af síðustu sjö innbyrðisleikjum liðanna.
Eini sigur Skallagríms á Snæfelli frá fyrrnefndum leik í nóvember var 14 stiga sigur í Stykkishólmi í janúar síðastliðnum en það var jafnframt síðasta viðureign liðanna.
Körfubolti