Fjórða umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta klárast í kvöld með þremur leikjum en svo gæti farið að eftir þá verði fimm af átta liðum deildarinnar jöfn að stigum á toppnum.
Haukar, Grindavík og Valur eru öll tveimur stigum á eftir toppliðum Keflavíkur og Snæfells. Keflavík tók toppsætið af Snæfelli um síðustu helgi með því að vinna fimmtán stiga sigur í Hólminum.
Grindavík heimsækir KR í DHL-höllina í Frostaskjóli í kvöld en bæði Haukar og Valur fá heimaleik. Haukakonur taka á móti Hamar í Schenkerhöllinni á Asvöllum en Valskonur fá Breiðablik í heimsókn í Vodafone-höllina á Hlíðarenda. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.
Vinni Haukar, Grindavík og Valur leiki sína í kvöld verða þau öll með þrjá sigra í fjórum fyrstu leikjunum alveg eins og Keflavík og Snæfell. Það er ljóst á fyrstu umferðunum að deildin verður mjög jöfn í vetur.
