Handbolti

Patrekur: Þarf að finna menn sem eru ekki farþegar

Birgir Hrannar Stefánsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka. Vísir/Valli
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, var allt annað en ánægður með frammistöðu sinna manna á Akureyri þegar liðið tapaði með sjö marka mun fyrir liði Akureyrar í 11. umferð Olís-deildar karla.

„Það er voða erfitt að segja í raun,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, strax eftir leik þegar hann var spurður út í fyrstu viðbrögð.

„Gríðarleg vonbrigði bara að koma svona til leiks. Ég átti ekki von á þessu eftir undirbúning okkar, maður sá að Akureyringum langaði mikið meira að spila leikinn en við og það er það sem maður er að hugsa núna og skilur ekki af hverju. Þetta er mjög erfiður leikur þegar staðan er orðin 12-4, að koma hingað norður með svona auglýsingu er mjög lélegt og ég er mjög svekktur,“ sagði Patrekur.

Það var á köflum hreinlega eins og þínir menn vildu ekki spila leikinn.

„Já, ég veit það ekki. Ég mun náttúrulega ræða það og það virkaði þannig. Þegar maður er að spila handbolta þá þarf viss grunnvinna að vera í lagi og það voru sumir sem áttu mjög erfitt með það í dag. Það er alltaf hægt að gera mistök inn á velli en svona er bara engan vegin í lagi og ég ætla ekki einu sinni að reyna að verja það.“

Krafan er væntanlega sú að gera allt annað í næsta leik en liðið gerði hér í dag?

„Já, núna þarf ég bara að finna leikmenn. Æfingar voru fínar og síðustu tveir leikir voru þannig að við vorum að vinna stórt. Núna þarf ég að finna menn sem er tilbúnir að gefa meira af sér til liðsins og vera ekki farþegar eins og þetta var í dag. Maður er drullu svekktur með það, eins og þú segir og sást eins og allir aðrir. Menn virkuðu eins og þeir væru í handbremsu og ég þarf að finna menn sem eru klárir í næsta leik," sagði Patrekur að lokum en Akureyrarliðið fór upp fyrir Hauka í töflunni með þessum sigri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×