Fótbolti

Enska knattspyrnusambandið skaðaði ímynd FIFA

Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. vísir/afp
Siðanefnd FIFA er ekki bara búið að hreinsa Katar af ásökunum um að hafa mútað nefndarmönnum FIFA heldur skammar FIFA enska knattspyrnusambandið í nýrri skýrslu.

Í skýrslunni segir að enska knattspyrnusambandið hafi sýnt af sér óæskilega hegðun er sambandið reyndi að fá atkvæði Jack Warner í kosningunni um HM 2018. Sá hætti hjá FIFA árið 2011 eftir að hafa ítrekað verið ásakaður um að hafa þegið mútur.

Þetta þykir skjóta skökku við þar sem enska knattspyrnusambandið hefur kallað hvað hæst eftir gagnsæum vinnubrögðum hjá FIFA. Hefur sambandið fengið bágt fyrir á stundum.

Enska knattspyrnusambandið er sakað um að hafa reynt að kaupa atkvæði Warner á ýmsan hátt. Með því að hjálpa einstaklingi sem tengist Warner að fá vinnu á Englandi.

Með því að leyfa U-20 ára liði Trinidad & Tobago að æfa í landinu sumarið 2009. Warner er frá Trinidad. Með því að styrkja kvöldverðarboð hjá Knattspyrnusambandi Trinidad.

Í skýrslunni segir að þeir sem fóru með umboð Englands fyrir HM 2018 hafi ítrekað reynt að verða við beiðnum Warner og með því hafi enska knattspyrnusambandið skaðað ímynd FIFA.

Eins og áður segir hefur Katar verið hreinsað af ásökunum um að hafa mútað mönnum og sömu sögu er að segja af Rússum. Það mun því ekkert hagga því að Rússland á Hm 2018 og Katar 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×