Samkeppnin verður vissulega mikil í 800 metra hlaupi kvenna en annar erlendu keppendanna, Rose-Anne Galligan sem er 26 ára Íri, á betri tíma en Aníta í greininni innanhúss. Aline Krebs frá Þýskalandi verður einnig með en bæði Galligan og Aníta eiga betri tíma en sú þýska.
Galligan bætti 19 ára gamalt írskt met í 800 metrunum á Demantamóti í London síðastliðið sumar þegar hún kom í mark á tímanum 2:00,58 mínútum. Besti tími hennar innanhúss er hins vegar 2:02,84 mínútur. Íslandsmet Anítu utanhúss er 2:00,49 mínútur en met hennar innanhúss er 2:03,27 mínútur.

Kolbeinn Höður Gunnarsson, spretthlauparinn efnilegi úr UFA, fær að spreyta sig í 60 metra hlaupi á móti Mark Lewis-Francis sem var meðlimur í bresku 4x100 m boðhlaupssveitinni sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004.
FH-ingurinn Kristinn Torfason fær verðuga keppni í langstökki karla en hann mætir þá Dananum Morten Jensen og Bretanum Daniel Gardiner. Jensen á best 8,25 metra frá árinu 2005 og fékk bronsverðlaun á EM innanhúss árið 2011. Daniel Gardiner keppir líka í 60 metra hlaupinu.
Frjálsíþróttakeppni RIG fer fram milli 13.00 og 15.30 á morgun en hápunkturinn er án efa 800 metra hlaupið hennar Anítu sem hefst klukkan 14.15. Þar fær efnilegasta íþróttakona Íslands vonandi mikla hvatningu í baráttunni við sterka erlenda keppendur.