Aldrei séð svona grimmd
Íslenska landsliðinu hafði aldrei tekist að komast upp um deild síðan að Evrópukeppnin varð að sameiginlegri karla- og kvennakeppni. Íslenska liðið var því að brjóta blað í íslenskri frjálsíþróttasögu.
„Ég hef aldrei séð svona grimmd í einu liði og ég er ótrúlega stolt af þeim. Þau voru eins og villidýr inni á vellinum,“ sagði Þórey kát. Það var mikil spenna á lokakaflanum og ekki síst vegna þess að enginn í íslenska hópnum vissi hver staðan væri.
„Þetta var stórt markmið hjá okkur. Við byrjuðum að undirbúa krakkana í vetur og settum markmið fram. Þau vissu því af því hvað við ætluðum að gera. Við ætluðum upp,“ segir Þórey.
Það var mikill hiti í Tíblisi í Georgíu og úrslitaþjónustan var til skammar. „Við sögðum bara við krakkana að einbeita sér að keppninni en ekki umgjörðinni. Það er ekki bara keppnin því það er matur og ýmislegt annað sem er ekki í lagi. Við vildum að þau fókuseruðu bara á sig og þeim tókst það,“ sagði Þórey Edda.
Íslenska liðið endaði með 487 stig, átta stigum á eftir Kýpur og aðeins 5,5 stigum á undan Ísrael sem sat eftir í 3. sætinu.
„Þetta var gríðarlega spennandi því við vissum ekki stöðuna. Þess vegna var barátta allt til loka því við vissum ekki að við værum á undan Ísrael fyrir þetta hlaup,“ segir Þórey Edda. Íslensku stelpurnar (264 stig) unnu inn 54 prósent af stigum íslenska liðsins og ekkert kvennalið í 3. deildinni vann inn fleiri stig. Íslensku strákarnir (223 stig) voru aftur á móti í 4. sæti á eftir Kýpur, Ísrael og Moldavíu.
Hafdís Sigurðardóttir var í miklum ham í hitanum en hún bætti sitt eigið Íslandsmet þegar hún tryggði sér sigur í langstökkinu og var í fyrsta eða öðru sæti í alls fimm greinum, þremur einstaklingsgreinum og báðum boðhlaupunum.
Hetjuleg frammistaða Hafdísar
„Hafdís stóð sig alveg eins og hetja. Ég á erfitt með að hrósa einum því mér fannst þau öll hrikalega góð. Við unnum þetta sem lið og Hafdís skilaði algjörlega sínu og er greinilega í þrusuformi. Það er frábært að vera með svona íþróttakonu innanborðs.“
Það er mikið af ungu frjálsíþróttafólki í hópnum en Kolbeinn Höður Gunnarsson varð meðal sá annars fimmti til að ná lágmarki inn á HM 19 ára og yngri í Bandaríkjunum í næsta mánuði þegar hann hljóp 200 metra hlaup á 21,37 sekúndum. Kolbeinn Höður var einnig í íslensku boðsveitinni sem sló 18 ára Íslandsmet í 4x100 metra hlaupi. Aðrir í sveitinni voru þeir Juan Ramon, Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Ari Bragi Kárason.

