Skoðun

Um forgangsröðun

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Er það rétt sem forsætisráðherrann sagði í hátíðarræðu sinni 17. júní að framfarirnar sem orðið hafa í landinu á undanförnum áratugum hafi ekki nýst landinu öllu? Er það mælikvarði á hvernig framfarirnar hafa nýst að nú býr hlutfallslega færra fólk í hinum dreifðari byggðum en gerði við lýðveldistökuna?

Ég held að svarið við báðum spurningunum sé nei. Það kom reyndar fram í máli ráðherrans að það er ekki séríslenskt fyrirbrigði að fólk flytjist í þéttbýli. Úr sveitum í þorp eða bæi og frá þorpum og bæjum á stærri þéttbýlissvæði.

Enn má spyrja og nú hvort það sé sérstakt hlutverk stjórnmálanna að sporna við þessari þróun? Svarið við því er líka nei. Auðvitað er það hlutverk stjórnmálanna að stuðla að því að fólk hafi það sem best og geti lifað sem auðugustu lífi hvar sem það kýs að búa. En það er ekki hlutverk stjórnmálanna að berjast gegn þróuninni.

Auðvitað hafa orðið gífurlegar framfarir um allt land. Það er óskynsamlegt að gefa annað í skyn. Samt sem áður getur verið full þörf á að styrkja innviði, samgöngur og fjarskipti til að nefna augljós verkefni.

Ég hef minni áhyggjur af landsbyggðinni en því að 12.000 börn á Íslandi búi eða eigi á hættu að búa við fátækt, eins og fram kom í skýrslu sem birt var í apríl. Þessar áhyggjur dvína ekki þegar hugsað er til þess að landsbyggðin á öflugan her þingmanna sem heldur hag hennar á lofti. Börnin hafa hins vegar ekki atkvæðisrétt. – Kannski er rétt að rifja upp að 7.000 manns búa á Vestfjörðum.

Með fjárlögum samþykkti Alþingi að barnabætur yrðu 10,2 milljarðar á árinu. Reglur um úthlutun gefa tilefni til að ætla að afgangur verði og að tugir milljóna renni aftur í ríkissjóð. Eitt af síðustu verkum þingsins var að fella tillögu sem hefði tryggt að öll fjárhæðin rynni til barnafjölskyldna. Nú hyggst ríksstjórnin eyða umtalsverðum fjármunum í hreppaflutninga frá Hafnarfirði til Akureyrar. – Stundum skilur kona ekki forgangsröðunina.




Skoðun

Sjá meira


×