Körfubolti

Kostnaðarsamar breytingar fyrir Cleveland Cavaliers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjálfarinn Dave Blatt með einum af nýju mönnunum  J.R. Smith.
Þjálfarinn Dave Blatt með einum af nýju mönnunum J.R. Smith. Vísir/Getty
Cleveland Cavaliers hefur verið duglegt á félagsskiptamarkaðnum í NBA-deildinni í körfubolta að undanförnu en allar þess breytingar munu kosta sitt fyrir eiganda félagsins.

Cleveland Cavaliers fékk til sín leikmennina Iman Shumpert, J.R. Smith og Timofey Mozgov og vænir samningar þeirra þýðir að félagið þarf væntanlega að borga 6,7 milljónir dollara í lúxusskatt sem gerir um 873 milljónir íslenskra króna.

New York Knicks tókst á móti að lækka lúxusskattinn sinn niður í 5,8 milljónir dollara með því að losna við Shumpert, Smith og svo Samuel Dalembert.

Það stefnir nú í það að fimm félög í NBA-deildinni borgi þennan lúxusskatt en hann þurfa félög að borga fari þau yfir launaþakið. Lúxusskatturinn skiptist síðan á milli liða deildarinnar sem eru undir launaþakinu.

Liðin fimm eru, auk Cleveland Cavaliers og New York Knicks, Brooklyn Nets, Los Angeles Clippers og Oklahoma City Thunder. Brooklyn Nets þarf að borga langmest eða 26,1 milljónir dollara sem gera yfir 3,4 milljarða íslenskra króna.  Cleveland er í öðru sæti listans og New York er í því þriðja.

Fleiri félög gætu dottið í það að þurfa að greiða umræddan lúxusskatt þurfi þau að gera breytingar því Toronto Raptors, Houston Rockets, Washington Wizards, Memphis Grizzlies og Indiana Pacers eru öll mjög nálægt launaþakinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×