Körfuknattleiksmaðurinn Magnús Þór Gunnarsson er búinn að semja við Skallagrím og mun leika með liðinu í Dominos-deild karla út tímabilið.
Þetta kemur fram á karfan.is, en Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, kveðst ánægður með liðsstyrkinn.
Sjá einnig:Fengið tvö tilboð en tekur sér líklega frí fram á sumarið
„Ég er virkilega sáttur, þarna er hafsjór af reynslu sem eykur gæðin mikið í okkar hóp,“ segir hann við karfan.is.
Magnús Þór spilaði með Grindavík fyrri hluta tímabils og var með 12,4 stig og 3,1 frákast að meðaltali í þeim níu deildarleikjum sem hann spilaði.
Hann sagði skilið við Grindavík um áramótin og sagðist í viðtali við Vísi reikna með að spila ekkert fyrr en næsta haust.
„Það er ekkert komið í ljós. Ég mun áfram fylgjast með körfunni og sjá svo hvað gerist. Hugsa um lífið og þess háttar í leiðinni. En það er ekkert ákveðið og eins og er reikna ég einfaldlega með því að vera í pásu fram á sumar,“ sagði hann á þriðjudaginn.
Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir Skallagrím sem er í 10. sæti Dominos-deildarinnar með fjögur stig líkt og ÍR og Fjölnir.
