Innlent

Átján fermetra íbúðin við Spítalastíg: „Ofboðslega hátt verð“

Birgir Olgeirsson skrifar
Fasteignasalinn Hannes Steindórsson segir verðið vissulega hátt á íbúðinni en það sé ekkert sem eigi að koma fólki á óvart.
Fasteignasalinn Hannes Steindórsson segir verðið vissulega hátt á íbúðinni en það sé ekkert sem eigi að koma fólki á óvart.
„Þetta er dýrt, en engu að síður eru fyrirspurnir,“ segir fasteignasalinn Hannes Steindórsson um átján fermetra íbúðina við Spítalastíg í miðborg Reykjavíkur sem er til sölu á 12,6 milljónir króna samkvæmt fasteignavef Vísis og fermetraverðið því 700 þúsund krónur.

Fjallað var um málið á vef Vísis á föstudag og þótti mörgum verðið á íbúðinni svimandi hátt. Hannes segir að taka megi undir það en bendir á að íbúðin sé metin á níu milljónir króna samkvæmt fasteignamati ríkisins. „Það er markaðurinn sem setur stefnuna og fasteignamatið reiknað út frá kaupsamningum í hverfinu. Þannig að það er ekki eitthvað verð sem einhver býr til,“ segir Hannes og bætir við að það sé afar erfitt að tala um fermetraverð á svona litlum íbúðum. Hann segir þó að þetta verð eigi ekki að koma mörgum á óvart og umræðan um hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu ekki ný af nálinni.



Uppfært klukkan 14.56:

Upphaflega var haft eftir Hannesi að það væri fasteignamat ríkisins sem setti stefnuna þegar kemur að fasteignamati. Hið rétta er að fasteignamat er metið út frá kaupsamningum og því markaðurinn sem setur stefnuna. 



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×