Körfubolti

Cleveland Cavaliers án LeBron James næstu vikurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James verður frá keppni á næstunni en Cleveland Cavaliers tilkynnti það í dag að besti leikmaður NBA-deildarinnar glími við meiðsli í hné og baki og verði ekki með liðinu næstu tvær vikurnar.

LeBron James hefur misst af síðustu tveimur leikjum Cleveland Cavaliers og liðið hefur tapað þeim báðum. Cleveland hefur enn ekki unnið leik á tímabilinu án James og þetta eru því mjög slæmar fréttir fyrir liðið.

Verði LeBron James frá í tvær vikur missir hann væntanlega af tíu leikjum liðsins en hann hefur aldrei verið lengur frá en í fimm leiki í röð á sínum ferli í NBA-deildinni.

Næstu leikir Cleveland eru á móti Charlotte á morgun og á móti Dallas á sunnudaginn en svo taka við leikir á móti Philadelphia og Houston.  

James hefur lengi verið að glíma við hnémeiðsli en þau tóku sig upp í leiknum á móti Miami Heat á Jóladag þegar hann þurfti að stökkva yfir fyrstu röð áhorfenda við enda vallarins. James hefur samt viðurkennt það að hann hafi verið slæmur í hnénu allt árið.

LeBron James er með 25,2 stig, 7,6 stoðsendingar og 5,3 fráköst að meðaltali í leik í fyrstu 29 leikjum sínum með Cleveland Cavaliers á tímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×