Körfubolti

Bikarmeistararnir úr leik | Framlengt í Grindavík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristen McCarthy hefur spilað mjög vel fyrir Snæfell í vetur.
Kristen McCarthy hefur spilað mjög vel fyrir Snæfell í vetur. vísir/vilhelm
Snæfell og Grindavík tryggðu sér farseðilinn í undanúrslit í Powerade-bikar kvenna í körfubolta í dag.

Íslandsmeistarar Snæfells áttu ekki í miklum vandræðum með að leggja Valskonur að velli í Stykkishólmi.

Kristen McCarthy skoraði 30 stig og tók 12 fráköst fyrir Snæfell sem leiddi með þremur stigum í hálfleik, 34-31.

Snæfellskonur unnu svo þriðja leikhlutann 30-19 og eftir það var ekki spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Lokatölur 87-65, Snæfelli í vil.

Berglind Gunnarsdóttir skoraði 15 stig fyrir Snæfell og systir hennar Gunnhildur bætti 12 stigum og níu fráköstum við. Þá skoraði Hildur Sigurðardóttir sex stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar fyrir Snæfell.

Taleya Mayberry var atkvæðamest í liði Vals með 25 stig og níu fráköst.

Það þurfti framlengingu til að knýja fram í úrslit í leik Grindavíkur og bikarmeistara Hauka suður með sjó.

Haukar leiddu með sex stigum í hálfleik, 43-49, og tólf stigum. 53-65, eftir þriðja leikhluta.

Fjórði leikhlutinn var hins vegar eign Grindvíkinga, en Pálína Gunnlaugsdóttir tryggði þeim framlengingu með því að setja niður tvö vítaskot á lokasekúndunum.

Í framlengingunni reyndist lið Grindavíkur svo sterkara og það vann að lokum sjö stiga sigur, 97-90.

María Ben Erlingsdóttir var stigahæst hjá Grindavík með 25 stig, en Kristina King kom næst með 22 stig. Pálína átti einnig hörkuleik með 21 stig, 11 fráköst og sex stoðsendingar.

LeLe Hardy var sem fyrr atkvæðamest í liði Hauka með 37 stig, 20 fráköst, sex stoðsendingar og fimm stolna bolta. Hardy tapaði hins vegar boltanum átta sinnum og fékk sína fimmtu villu þegar 03:11 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Á morgun mætast svo Njarðvík og KR og átta-liða úrslitunum lýkur svo með leik Keflavíkur og Breiðabliks á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×