Körfuknattleiksamband Íslands hefur ákveðið leikdaga og leiktíma í undanúrslitum Poweradebikars karla og kvenna sem fara fram um næstu helgi en þar verður keppt um sæti í bikarúrslitaleikjunum sem verða 21. febrúar næstkomandi.
Tvö efstu liðin í Dominos-deildunum mætast í bæði karla- og kvennaflokki og þeir gerast því varla stærri bikarleikirnir nú þegar farseðill í Laugardalshöllina er í boði.
Keflavík tekur á móti toppliði Snæfells í Poweradebikar kvenna klukkan 16.30 á laugardaginn en leikur Grindavíkur og Njarðvíkur fer fram í Grindavík klukkan 19.15 á mánudagskvöldið 2. febrúar.
Skallagrímur fær Stjörnuna í heimsókn í Poweradebikar karla klukkan 19.15 á sunnudagskvöldið en sólarhring síðar tekur topplið KR á móti spútnikliði Tindastóls í Frostaskjólinu.
Tindastólsmenn urðu fyrstir til að vinna KR-inga á dögunum en sá leikur fór fram í Síkinu á Sauðárkróki. Fyrr í vetur þurfti KR framlengingu til að vinna Stólanna í DHL-höllinni og það er von á spennandi leik á mánudagskvöldið.
Undanúrslit Poweradebikarsins í ár:
Powerade-bikar kvenna:
Keflavík-Snæfell 31. janúar klukkan 16.30
Grindavík-Njarðvík 2. febrúar klukkan 19.15
Powerade-bikar karla:
Skallagrímur-Stjarnan 1. febrúar klukkan 19.15
KR-Tindastóll 2. febrúar klukkan 19.15
Leikur KR og Tindastóls verður á mánudagskvöldið

Tengdar fréttir

KR-ingar voru bara einum sigri frá metinu
Tindastólsmenn komu í veg fyrir að KR-liðið jafnaði nítján ára met Njarðvíkinga í flestum sigrum í röð.

Tindastóll stöðvaði 23 leikja sigurgöngu KR-inga í kvöld
Tindastóll varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna KR í Dominos-deild karla í vetur en Tindastóll vann þriggja stiga sigur á KR, 81-78, þegar liðin mættust í fjórtándu umferð deildarinnar í kvöld.