Tónlist

Strax vinsæl: Plata Bjarkar í efsta sæti í 30 löndum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Vulnicura fer vel í fólk.
Vulnicura fer vel í fólk.
Ný plata Bjarkar Guðmundsdóttur, Vulnicura, hefur heldur betur slegið í gegn eftir að hún var óvænt sett á iTunes í gærkvöldi.

Platan situr í efsta sæti yfir þær plötur sem eru á tónlistarveitunni í þrjátíu löndum, þrátt fyrir að hafa ekki verið á vefnum í sólarhring. Þetta má sjá á lista sem byggir á rauntíma upplýsingum frá iTunes.

Björk situr meðal annars á toppnum í Bretlandi, Mexíkó, Brasilíu, Argentínu, Noregi, Rússlandi og Póllandi. Platan er einnig í öðru sæti í níu löndnum, þar á meðal í Frakklandi, Þýskalandi og Suður-Afríku.

Platan hefur fengið mjög góða dóma. Blaðamaður breska miðilsins The Guardian segir Björk hafa sett sjálfa sig og umhverfisvitund sína aftur í forgrunn með plötunni. Hann segir að þetta sé mikilvægasta plata Bjarkar síðan árið 2001 og notar sterk lýsingarorð og segir að platan sé „særð, hrá og - það mikilvægasta af öllu - mannleg."

Í gagnrýni miðilsins Irish Times fær Björk fjórar stjörnur fyrir plötuna. Þar segir að Björk hafi neyðst til að gefa plötuna út snemma, en að það hafi svo sannarlega verið sigur fyrir íslensku söngkonuna.

Blaðamaður MTV segir plötuna vera magnaða. Hann segir plötuna hreinlega lama hlustandann. Hann segir plötuna vera lífræna en samt svo fjarlæga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×