Körfubolti

NBA: Oklahoma City loksins með fleiri sigra en töp | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant á ferðinni í nótt.
Kevin Durant á ferðinni í nótt. Vísir/AP
Oklahoma City Thunder komst yfir fimmtíu prósent sigurhlutfall í fyrsta sinn á tímabilinu eftir sigur á Miami Heat í NBA-deildinni í nótt. NBA-meistarar San Antonio Spurs unnu sinn fjórða leik í röð.

Kevin Durant og Russell Westbrook skoruðu báðir 19 stig þegar Oklahoma City Thunder vann 94-86 útisigur á Miami Heat en eftir leikinn er Thunder-liðið með 21 sigur og 20 töp á tímabilinu.

Durant gældi við þrennuna en hann var auk stiganna með 8 fráköst og 8 stoðsendingar. Westbrook var með 10 fráköst og 6 stoðsendingar auk stiganna sinna. OKC hefur unnið 13 af 18 leikjum sínum síðan að besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili snéri aftur eftir meiðsli.

Dwyane Wade skoraði 18 stig fyrir Miami Heat og Chris Bosh var með 16 stig en liðið hefur tapað 13 af 20 heimaleikjum sínum á tímabilinu. Miami tók aðeins 68 skot á móti 92 hjá OKC enda tapaði Miami-liðið 10 fleiri boltum en Thunder í þessum leik.

Kawhi Leonard var með 17 stig og 15 fráköst þegar San Antonio Spurs vann 109-99 útsigur á Denver Nuggets. Leonard og Tony Parker hafa snúið aftur eftir meiðsli og Spurs-liðið er komið á skrið en þetta var fjórði sigur liðsins í röð. San Antonio tapaði meðal annars 9 sinnum í 14 leikjatörn í desember.

Tony Parker var með 18 stig og 7 stoðsendingar, Tim Duncan skoraði 16 stig og Manu Ginobili var með 11 stig og 8 stoðsendingar á 24 mínútum.

Kenneth Faried skoraði 26 stig og tók 14 fráköst fyrir Denver-liðið og Arron Afflalo skoraði 21 stig en það breytti ekki því að liðið tapaði sínum fjórða leik í röð.

Úrslit úr öllum leikjum í NBA-deildinni í nótt:

Miami Heat - Oklahoma City Thunder 86-94

Denver Nuggets San Antonio Spurs 99-109

Staðan í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×