Körfubolti

Kobe Bryant: Horfir til San Antonio Spurs og ætlar ekki að hætta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/Getty
Kobe Bryant, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta, er ekkert að fara að setja körfuboltaskóna upp á hillu þrátt fyrir að enn eitt tímabilið hjá honum hafi endað á erfiðum meiðslum.

Kobe Bryant segist sækja sér innblástur til leikmanna San Antonio Spurs og að hann ætli að halda áfram þótt að hann sé ekki öruggur um hvort líkaminn gefi honum hreinlega færi á því.

„Ég get ekki sagt að þetta sé endirinn. Ég hélt að Spurs-liðið væri búið fyrir tuttugu árum en þessir karlar eru ennþá að vinna. Ég get því ekki sett punktinn hér og er að vona að ég get komið mínum ferli aftur af stað," sagði Kobe Bryant í viðtali við NBA TV.

Kobe Bryant var með 22,3 stig, 5,7 fráköst og 5,6 stoðsendingar að meðaltali í 35 leikjum með Los Angeles Lakers áður en hann meiddist. Kobe komst meðal annars upp fyrir Michael Jordan og upp í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn NBA-deildarinnar frá upphafi.

„Ég vil sjá hvort ég geti komið til baka því ég veit það ekki sjálfur. Ég verð að komast að því. Ég mun fara yfir öll smáatriði og vinna mig til baka hægt og rólega og með því að taka einn dag í einu," sagði Bryant.

Kobe Bryant meiddist illa á hægri öxlinni í leik á móti New Orleans Pelicans 21. janúar og verður ekkert meira með í vetur. Hann er launahæsti leikmaður NBA-deildarinnar í dag og fær 23,5 milljónir dollara fyrir tímabilið eða yfir þrjá milljarða í íslenskum krónum. Bryant mun fá 25 milljónir dollara fyrir næsta tímabil en hann verður 37 ára gamall á þessu ári.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×