Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur tilkynnt að heræfingar landsins í suðurhluta landsins séu hafnar.
Rúmlega tvö þúsund menn flughersins taka þátt í æfingunni sem fer fram á umdeildum landsvæðum, þar á meðal Krímskaga, rússneskum herstöðvum í Armeníu og georgísku héruðunum Abkasíu og Suður-Ossetíu. Interfax greinir frá þessu.
Talið er að Rússlandsher vilji með æfingunum sýna fram á styrk sinn, en mikil spenna ríkir nú í samskiptum Rússlands og Vesturveldanna.
Aðstoðarvarnarmálaráðherrann Anatoly Antonov segir að virkni herja vesturveldanna nærri rússnesku landamærunum séu víða meiri en starfsemi Rússlandshers. Segir hann aðildarríki NATO nýta sér ástandið í austurhluta Úkraínu sem afsökun til að flytja hersveitir sínar nær Rússlandi.
