Fótbolti

Segir Buffon vera veikasta hlekk Juventus

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gianluigi Buffon hefur varið mark Juventus í fjórtán ár.
Gianluigi Buffon hefur varið mark Juventus í fjórtán ár. vísir/getty
Jürgen Kohler, fyrrverandi miðvörður Dortmund og Juventus, telur Gianluigi Buffon, markvörð Ítalíumeistaranna, veikasta hlekk liðsins.

Dortmund mætir Juventus í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld, en ítalska liðið er með 2-1 forystu eftir heimaleikinn.

Kohler telur að Dortmund fari áfram með sigri á heimavelli þar sem ítalska liðið sé ekki með nógu góða vörn né markvörð.

„Ég er handviss um að Dortmund komist í átta liða úrslit. Juventus er kannski á toppnum á Ítalíu en liðið hefur marga veikleika,“ segir Kohler í viðtali við Bild.

Hann bendir á Gianluigi Buffon, landsliðsmarkvörð Ítalíu til 18 ára og einn besta markvörð sögunnar, sem einn veikasta hlekkiinn í Juventus-liðinu.

„Buffon var einu sinni magnaður markvörður en hann er ekki lengur jafngóður og hann var. Hann hefur gert mikið af mistökum undanfarið og svo er Juventus-vörnin ekki nógu góð,“ segir Kohler.

„Úrslitin úr fyrri leiknum eru hættuleg fyrir Juventus. Dortmund er alltaf líklegt til að refsa liðum sem verjast of aftarlega. Leikmenn eins og Marco Reus og Pierre-Emerick Aubameyang geta skorað mörg upp úr engu. Mín spá er að Dortmund komist í 3-0 og vinni, 3-1,“ segir Jürgen Kohler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×