Golf

Guðmundur Ágúst sigraði með glæsibrag á sterku háskólamóti

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. GSÍ
Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR sigraði í dag á Seminole Intercollegiate háskólamótinu sem fram fór Southwood keppnisvellinum í Flórída.

Hann lék stórkostlegt golf alla helgina og eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 63 höggum eða níu undir pari fylgdu tveir aðrir góðir hringir upp á 67 og 69 högg. Guðmundur, sem spilar fyrir golflið  East Tennessee State háskólans, endaði því á 17 höggum undir pari en hann sigraði mótið að lokum með þremur höggum.

Mótið var gríðarlega sterkt enda mörg af bestu háskólaliðum Bandaríkjanna með en margir af bestu kylfingum PGA-mótaraðarinnar hafa komið upp í gegn um háskólagolfið í Bandaríkunum.

Guðmundur Ágúst hefur um árabil verið einn af efnilegustu kylfingum Íslands en hann er margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum, varð klúbbmeistari GR árið 2010 aðeins 17 ára gamall og sigraði á Íslandsmótinu í holukeppni árið 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×