Körfubolti

Var McDonald's stjörnuleikmaður en fór svo að vinna á McDonald's

David Harrison.
David Harrison. vísir/getty
David Harrison var valinn númer 29 í nýliðavali NBA-deildarinnar árið 2004. Hann þénaði yfir 600 milljónir á fjórum árum í NBA-deildinni.

Níu árum eftir að hann var valinn í NBA-deildinni var hann farinn að vinna á McDonald's. Hann var McDonald's stjörnuleikmaður áður en hann komst í NBA-deildina þar sem honum var spáð björtum frama.

Eftir að hafa misst samning sinn við Indiana Pacers árið 2008 fór hann til Kína og spilaði þar í þrjú ár. Eftir það hrundi veröld hans og allar milljónirnar eru horfnar í dag.

Harrison í baráttu við Shaquille O'Neal.vísir/getty
„Er ég fór að vinna á McDonald's skammaðist ég mín fyrir það hvar ég var staddur í lífinu. Það verða samt allir að vinna einhvers staðar. Ég á tvö börn og þeim er alveg sama hvar ég vinn. Þau þurfa bara að fá að borða," sagði Harrison.

„Húsið mitt var komið á uppboð og það komu menn að reyna að taka bílinn minn af mér. Það var allt í tómu tjóni hjá mér."

Harrison var á meðal þeirra sem fóru mikinn í slagsmálum Indiana og Detroit árið 2004. Hann kýldi 67 ára gamlan mann í stúkunni og sjálfur var hann laminn og fékk stól í bakið.

Hann hefur verið að æfa með hinum og þessum áhugamannaliðum upp á síðkastið en ekki fengið símtal frá NBA-liði í þrjú ár. Hann æfði með Dallas árið 2012 en fékk ekki samning.

Orðinn 32 ára gamall þá hefur Harrison misst trúna á að komast aftur að í NBA-deildinni. Hann langar að klára háskóla þar sem hann á nokkrar einingar eftir. Hann hefur aftur á móti ekki efni á því að fara aftur í skóla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×