Farþegar í flugi EasyJet frá Basel í Sviss, sem átti að lenda á Keflavíkurflugvelli klukkan hálffimm í dag, eru loks komnir á áfangastað eftir að hafa eytt rúmlega tíu klukkustundum í vélinni. Vegna óveðurs á suðvesturhorni landsins þurfti fyrst að beina vélinni til Egilsstaða og svo þurftu farþegar að bíða á flugbrautinni í Keflavík þar sem ekki var hægt að afgreiða vélarnar vegna roks.
Farþegum vélarinnar var loks hleypt út um tuttugu mínútur yfir tíu í kvöld. Farþegi sem Vísir náði tali af segir að vélin hafi verið full af fólki. Farþegar hafi fengið mat á meðan þeir sátu fastir í vélinni en þeir hafi þurft að greiða fyrir hann. Boðið var upp á ókeypis drykki á Egilsstöðum.
Vélin lenti í Keflavík um klukkan átta og þurftu farþegar því að bíða í um tvær klukkustundir á flugbrautinni á meðan veður lægði, en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu náðu vindhviður á Suðurnesjum um þrjátíu metrum á sekúndu á þessum tíma.
Fleiri flugvélar, meðal annars á vegum Wow Air og Primera Air, sátu einnig fastar á flugbrautinni á þessum tíma en nú er hægt að afgreiða þær, samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar.
Farþegar EasyJet komnir heim eftir tíu klukkustundir í flugvél

Tengdar fréttir

Flugvélar sitja fastar á flugbrautinni í Keflavík
Ekki hægt að afgreiða vélarnar sem stendur vegna veðurs.

Farþegar Easy Jet sitja fastir á Egilsstöðum
Vélar frá Basel og Edinborg gátu ekki flogið til Keflavíkur vegna veðurs.