Ólafur Ingi Skúlason hefur verið kallaður inn í íslenska A-landsliðshópinn í knattspyrnu fyrir vináttuleikinn gegn Eistlandi á þriðjudag.
Aron Einar Gunnarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa báðir hellst úr lestinni. Aron Einar eignaðist sitt fyrsta barn á dögunum og heldur til Cardiff, en kona Eiðs á von á þeirra fjórða barni.
Ólafur Ingi er á mála hjá Zulte-Waregem í Belgíu, en hann hefur spilað 25 landsleiki og skorað í þeim eitt mark.
Ísland mætir Eistlandi á þriðjudag eins og áður segir, en líklegt er að þeir sem hafa minna spilað í undankeppninni fái að spreyta sig. Leikurinn hefst klukkan 16:00 á þriðjudag.
