Landsliðsþjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck hafa tilkynnt byrjunarlið Íslands fyrir leikinn á móti Kasakstan í Astana í dag.
Þetta er fimmti leikur Íslands í riðlinum en jafnframt sá fyrsti sem er spilaður á árinu 2015. Leikurinn hefst klukkan 15.00 að íslenskum tíma en þá er klukkan orðin níu í Kasakstan.
Heimir og Lars gera þrjár breytingar á liðinu sem hefur byrjað fyrstu fjóra leiki Íslands í undankeppni EM 2016.
Theodór Elmar Bjarnason er meiddur og er því ekki með í Kasakstan og þá fara þeir Jón Daði Böðvarsson og Emil Hallfreðsson á bekkinn.
Í stað þeirra Theodórs Elmars, Emils og Jón Daða koma inn í liðið þeir Eiður Smári Guðjohnsen, Birkir Már Sævarsson og Jóhann Berg Guðmundsson.
Eiður Smári Guðjohnsen spilar þar með sinn fyrsta landsleik í sextán mánuði en hann hefur ekkert verið með liðinu frá því í Króatíu í nóvember 2013.
Byrjunarlið Íslands á móti Kasakstan:
Markvörður: Hannes Þór Halldórsson
Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson
Miðverðir: Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson
Vinstri bakvörður: Ari Freyr Skúlason
Hægri kantur: Birkir Bjarnason
Miðjumenn: Aron Einar Gunnarsson (fyrirliði) og Gylfi Þór Sigurðsson
Vinstri kantur: Jóhann Berg Guðmundsson
Framherjar: Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen

