Keflavíkurkonur byrja úrslitakeppnina af miklum krafti en liðið er komið í 1-0 í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Haukum eftir 31 stigs sigur í kvöld, 82-51.
Keflavíkurliðið var með mikla yfirburði í kvöld og Haukakonur þurfa heldur betur að taka til hjá sér ef þær ætla ekki að láta sópa sér í sumarfrí í ár.
Carmen Tyson-Thomas er búin að ná sér af rifsbeinsbrotinu og var flott í kvöld með 33 stig og 14 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst hjá íslensku stelpunum í liðinu.
Keflavíkurliðið tókst einnig að halda Lele Hardy í aðeins fimmtán stigum og sex fráköstum en Lele var búin að vera með tröllatvennu (yfir tuttugu í stigum og fráköstum) í níu leikjum í röð. Lele meiddist auk þess í leiknum og var borin af velli sem eru enn verri fréttir fyrir Hafnarfjarðarliðið.
Keflavíkurkonur byrjuðu af miklum krafti og komust í 6-0 og 12-3 en það munaði fimm stigum eftir fyrsta leikhlutann, 18-13. Keflvíkingurinn Carmen Tyson-Thomas var með 8 stig og 5 fráköst í fyrsta leikhlutanum en Lele Hardy var með 4 stig og 2 fráköst.
Keflavíkurliðið tók síðan öll völd í öðrum leikhlutanum sem liðið vann 25-13 og var Haukaliðið því sautján stigum undir, 43-26, þegar gengið var til hálfleiks.
Keflavíkurkonur skoruðu fimm fyrstu stig seinni hálfleiksins en Tyson-Thomas var þá komin með 21 stig í leiknum og Keflavík með 22 stiga forskot, 48-26.
Keflavík vann þriðja leikhlutann á endanum 22-7 og úrslitin voru ráðin enda Keflavíkurliðið komið 32 stigum yfir. Fjórði leikhlutinn var því aðeins formsatriði.
Haukaliðið á næsta leik á heimavelli á laugardaginn og þar verður fróðlegt að sjá hvort Haukakonur eigi einhver svör á móti þessi geysisterka Keflavíkurliði en þrjá sigra þarf til að komast í lokaúrslitin.
