Körfubolti

Fimm brot í hendi John Wall | Óvissa um framhaldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Wall strax eftir fallið.
John Wall strax eftir fallið. Vísir/Getty
John Wall, leikstjórnandi Washington Wizards í NBA-deildinni, er ekki líklegur til að hjálpa liðinu mikið í úrslitakeppninni á næstunni.

Í kvöld kom í ljós að hann er með fimm brot í vinstri hendi og vinstri úlnlið. Brotin sáust ekki á fyrstu röntgenmyndum en komu í ljós eftir frekar rannsóknir.

John Wall meiddist í fyrsta leik Washington Wizards á móti Atlanta Hawks í undanúrslitum Austurdeildarinnar og missti af leik tvö þar sem Atlanta Hawks jafnaði metin.

John Wall var með 18 stig og 13 stoðsendingar Atlanta Hawks í fyrsta leiknum sem Washington Wizards vann 104-98. Hann meiddist þegar hann setti höndina fyrir sig um leið og hann féll í gólfið. Wall hélt samt áfram og kláraði leikinn.

Washington Wizards vann fimm fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni og John Wall var með 17,4 stig og 12,6 stoðsendingar að meðaltali í þeim.

„Þetta er auðvitað ekki það sem þú vilt heyra. Miðað við það hvað hann var bólginn þá vissum við að þetta var ekki eitthvað gott. Við erum ennþá að tala við lækna um stöðuna," sagði Randy Wittman, þjálfari Washington Wizards. Hann er ekki búinn að afskrifa það að John Wall verði meira með.

„Við verðum samt að undirbúa okkur fyrir það að spila án hans," sagði Wittman.

„Þetta er auðvitað erfitt fyrir liðið en ég er viss um að þetta er enn verra fyrir John. Hann lagði svo mikið á sig til að komast á þennan stað á sínum ferli," sagði Paul Pierce, liðsfélagi John Wall hjá Washington Wizards.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×