Fótbolti

Messi tryggði Barcelona titilinn á Spáni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi klikkar ekki á ögurstundu.
Lionel Messi klikkar ekki á ögurstundu. vísir/getty
Barcelona varð Spánarmeistari í fótbolta í 23. sinn í sögu félagsins í dag, en liðið tryggði sér meistaratitilinn með sigri á Atlético á útivelli, 1-0.

Barcelona vissi fyrir leikinn að sigur myndi duga liðinu til Spánarmeistaratitilsins þar sem það hafði fjögurra stiga forystu á Real Madrid fyrir síðustu tvær umferðirnar.

Atlético varðist eins og því einu er lagið og stefndi allt í markalaust jafntefli sem hefði gefið Real Madrid smá von fyrir lokaumferðina.

En eins og allt kom Lionel Messi til bjargar. Hann skoraði sigurmarkið með flottu skoti úr teignum á 65. mínútu. Batt með því endahnút á frábæra sókn Börsunga.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og fögnuðu leikmenn Barcelona vel og innilega í leikslok. Þeir geta enn unnið þrennuna, en þeir eru í úrslitum spænska Konungsbikarsins og úrslitum Meistaradeildarinnar.

Flottur árangur hjá Luis Enrique að endurheimta titilinn á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Barcelona, en liðið er nú þegar komið með 93 stig auk þess sem það er búið að skora 108 mörk og fá aðeins á sig 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×