Selfoss og Grindavík skildu jöfn, 1-1, í fjórðu umferð 1. deildar karla í fótbolta á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.
Heimamenn voru marki yfir í hálfleik, en Ivanirson Silva Oliveira frá Grænhöfðaeyjum skoraði fyrir Selfoss strax á annarri mínútu leiksins, 1-0.
Í seinni hálfleik fékk Grindavík vítaspyrnu á 63. mínútu þegar Alex Freyr Hilmarson var felldur í teignum.
Slóvenski framherjinn Tomislav Misura fór á punktinn og skoraði framhjá Vigni Jóhannessyni, 1-1.
Skömmu síðar fékk Grindavík aðra vítaspyrnu þegar bakvörðurinn Jósef Kristinn Jósefsson féll í teig Selfyssinga.
Misura fór aftur á punktinn en að þessu sinni skaut Slóveninn í slána. Kjörið tækifæri til að vinna leikinn rann þar út í sandinn.
Í uppbótartíma var Ivanirson Silva Oliveira svo rekinn af velli þegar hann fékk sitt annað gula spjald. Lokatölur, 1-1.
Liðin eru áfram í 8. og 9. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjórar umferðir.
