Þátturinn bar nafnið forystusætið og þar spurðu Heiðar Örn Sigurfinnsson og Sigmar Guðmundsson út í ummæli Sigmundar þess efnis að 300 milljarða króna svigrúm myndi skapast í samningaviðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna en myndband úr þættinum hefur gengið um samfélagsmiðla í dag.
Sigmundur sagði þá að það væru kröfuhafarnir sem þrýstu á að losna úr landinu með fjármuni sína og þeim lægi á. „Og ríkið hefur til þess tækin sem þarf til að þrýsta enn frekar á um samninga,“ svaraði Sigmundur Davíð.
Hann sagði gríðarlega vörn felast í þessari leið. „Við erum að verja heimilin fyrir því sem ella hefði orðið verulegur verðbólguþrýstingur. Ef höftum hefði verið aflétt án þessara ráðstafana hefði verðbólgan farið úr böndunum,“ sagði Sigmundur og benti á að með þessu væri verið að vernda efnahagslegan stöðugleika fólks og koma í veg fyrir að lán heimilanna rjúki upp. Þá sé einnig verið að tryggja, að sögn Sigmundar, að verðmæti þurfi ekki að renna úr landinu til að standa straum af skuldum fallinna einkafyrirtækja.
Hann sagði þessa leið ekki laska ímynd Íslands í augum fjárfesta, þeir muni leita þangað sem þeir sjá mesta hagnaðarvon. „Og við erum með þessu að ganga þannig frá málum að þeir sem komu og fjárfestu í kröfum þessara föllnu banka munu þrátt fyrir allt ná töluverðum hagnaði af því langflestir keyptu þessar kröfur eftir að bankarnir hrundu. Þeir komu þessir vogunarsjóðir og keyptu á þrjú sent, fimm sent, það sem áður var hundrað senta virði. Það hefur svo hækkað verulega í verði, meðal annars vegna þess að það fékk að vaxa í skjóli hafta og reyndar með töluvert háum vöxtum framan af. Svoleiðis að það er bara sanngjarnt og eðlilegt að fái þeir að innleysa þennan ávöxt sinn þá taki þeir þátt í því að hægt sé að aflétta höftunum.“