Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna vill að Christoph Büchel höfði mál á hendur borgaryfirvöldum í Feneyjum vegna ákvörðunar þeirra um að loka íslenska sýningarskálanum á Feneyjatvíæringnum.
Christoph Büchel er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í ár en hann breytti gamalli kirkju í mosku. Verkið er umdeilt og gerðu borgaryfirvöld í Feneyjum fjölmargar athugasemdir við það. Skálanum var síðan lokað með lögregluvaldi í síðasta mánuði.
Samband íslenskra myndlistarmanna hefur gagnrýnt þessa ákvörðun og líkir henni við ritskoðun.
„Við teljum að það sé verið að brjóta á tjáningarfrelsi listamannsins og að það sé grófleg ritskoðun í gangi,“ segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna.
Sýningarstjóri íslenska skálans sagðist í hádegisfréttum Bylgjunnar vonast til þess að hægt verði að opna skálann á ný á næstu vikum.
Jóna segir að íslensk stjórnvöld þurfi að beita sér í málinu og vill ennfremur að Büchel höfði mál á hendur borgaryfirvöldum í Feneyjum.
„Lokunin hefur valdið fjárhagslegu tjóni. Svo er það mannorðið og þetta er mannréttindarbrot. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að réttlætið nái fram að ganga,“ segir Jóna.