Erlent

Grikkir höfnuðu samningnum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. vísir/epa
Grikkir höfnuðu samningi um afborganir landsins sem settur var fram af alþjóðlegum lánadrottnum þeirra í gær. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði skilyrði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að leysa skuldavanda landsins ósanngjörn.

Tsipras fundaði í Brussel í gær með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og forseta evruhópsins, Jeroen Dijsselboem. Hann kynnti á fundinum tillögur sínar til umbóta sem hann sagði raunhæfar og vonaðist að með því væri loks komin lausn á skuldavanda landsins.

Í yfirlýsingu frá Evrópusambandinu segir að viðræðum verði haldið áfram og að það þokist mjög í átt að samkomulagi. Lítill tími er þó til stefnu, en Grikkir þurfa að greiða 300 milljónir evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á morgun. Stórir gjalddagar reka síðan hver annan næstu vikurnar, en stærsta endurgreiðslan á að vera í næsta mánuði. Þann 20.júlí á Grikkland að greiða 3,5 milljarða evra til Seðlabankans. Náist ekki sátt fyrir morgundaginn þarf ESB og AGS að leysa út neyðarlán til Grikkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×