Athygli vekur að aðgerðirnar sem ríkisstjórnin boðar eru ríflegar og ganga mjög langt. Ekki er langt síðan að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar höfðu miklar áhyggjur af því að kröfurnar sem fram komu opinberlega í aðdraganda verkfalla á almennum vinnumarkaði myndu ýta undir verðbólgu og ógna stöðugleika.
Vissulega voru þessar aðgerðir liður í því að liðka fyrir samningum við mjög stóran hóp til langs tíma, en fjármögnun þeirra er óljós og vinna við að tryggja hana mjög stutt á veg kominn. Eygló talaði um að ríkissjóður stæði vel og vinna við að reisa hann við gæfi tilefni til að ráðast í þessar aðgerðir og útilokaði ekki að afgangi ríkisins yrði ráðstafað í þetta. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur hins vegar lagt ríka áherslu á niðurgreiðslu skulda og jöfnuð í ríkisrekstri. Þannig má ljóst vera að ágreiningur um fjármögnun til þessara aðgerða er ekki í útkljáður, en gangi þessar aðgerðir ekki eftir geta aðilar vinnumarkaðarins sagt sig frá samningum sem undirritaðir voru í síðustu viku.
Ríkisstjórnin samþykkti frumvarp Eyglóar um breytingar á húsnæðisbótakerfinu í ríkisstjórn í morgun og fer það væntanlega á þing í þessari viku. Eygló hefur lagt mikla áherslu á að að jafna stöðu leigenda og þeirra sem eiga fasteign, en þetta frumvarp felur í sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð sem þingið þarf að taka afstöðu til.