Fótbolti

England er óstöðvandi og Rooney búinn að jafna Lineker

Jack Wilshire skoraði stórkostlegt mark þegar hann kom Englandi í 2-1. Hér er boltinn á leið í samskeytinn.
Jack Wilshire skoraði stórkostlegt mark þegar hann kom Englandi í 2-1. Hér er boltinn á leið í samskeytinn. vísir/getty
England sótti þrjú stig til Slóveníu í undankeppni EM þegar liðin mættust í Ljúblíana í dag. Wayne Rooney var hetja Englendinga í 3-2 sigri.

Milivoje Novakovic, sem leikur með Nagoya Grampus í Japan, kom Slóvenum yfir með marki á 37. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Englendingar gerðu breytingu í hálfleik, tóku Phil Jones af velli og settu Adam Lallana inn í hans stað. Það virtist hressa upp á sóknarleik Englands sem náði að jafna á 57. mínútu. Var þar að verki Jack Wilshire, leikmaður Arsenal.

Englendingar voru nálægt því að komast yfir í tvígang skömmu eftir markið frá Wilshire. Wayne Rooney var þar að verki í bæði skiptin og er óhætt að flokka fyrra færið hans sem dauðafæri.

Wilshire hafði hins vegar ekki sagt sitt síðasta orð. Á 73. mínútu batt hann enda á góða sókn enska liðsins með því að þruma boltanum í samskeytin á slóvenska markinu. Stórkostlegt mark.

Slóvenar voru hins vegar ekkert á þeim buxunum að gefast upp og varamaðurinn Nejc Pecnik jafnaði metin með laglegu skallamarki á 84. mínútu.

Tveimur mínútum síðar skoraði Rooney sigurmark Englands í leiknum. Þetta var jafnframt 48. landsliðsmark Wayne Rooney sem er þar með búinn að skora jafnmörg mörk og Gary Lineker gerði á sínum ferli. Rooney er núna einu marki frá því að jafna metið sem Bobby Charlton á, 49 mörk.

Englendingar eru lang efstir í E-riðli með 18 stig að loknum 6 leikjum og komnir með annan fótinn til Frakklands, þar sem lokakeppnin verður á næsta ári. Slóvenar eru í 2. sæti með 9 stig, jafnmörg stig og Sviss sem á leik til góða gegn Litháen í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×