"Mér fannst við hafa stjórn á þessum leik en við misstum boltann svolítið oft á miðsvæðinu," sagði Kári.
"Þeir voru þéttir fyrir þar. Völlurinn var líka erfiður og boltinn var svolítið skoppandi. Strákarnir á miðjunni voru í smá vandræðum í fyrri hálfleik en það var meira vellinum að kenna en nokkru öðru.
"En við vorum með tögl og haldir á leiknum í seinni hálfleik. Þeir skora reyndar mark sem er erfitt að verjast - hann stýrði boltanum bara í samskeytin," sagði Kári og vísaði til marks Boreks Dockal á 55. mínútu.
"Við misstum aldrei trúna og við sýndum að það býr mikill kraftur í liðinu. Við komum til baka og eftir fyrsta markið var ég aldrei í vafa um að við myndum vinna þennan leik. Við ýttum fleiri mönnum fram og byrjuðum að spila hraðar á miðjunni."
Eins og svo oft áður náðu Kári og Ragnar Sigurðsson vel saman í miðri vörn íslenska liðsins og lokuðu á flestar sóknaraðgerðir tékkneska liðsins.
"Þetta gekk vel og það hentar okkur ágætlega að spila á móti svona stórum framherjum. Þeir sköpuðu lítið fannst mér. Þeir áttu einhver skot og fyrirgjafir sem við réðum ágætlega við," sagði Kári en sigurinn skilar Íslandi upp í efsta sæti A-riðils með 15 stig. Lokakeppnin í Frakklandi færist því nær.
"Ég sagði fyrir leikinn að liðið sem ynni leikinn væri komið með annan fótinn til Frakklands og ég stend við þau orð. Það þarf eitthvað mikið að fara úrskeiðis og við þurfum að klúðra þessu sjálfir ef við ætlum ekki að fara til Frakklands," sagði Kári að lokum.
